Um Lúka Art & Design.

Lúka Art & Design var formlega stofnað í janúar 2009 af tvíburasystrunum Gunnhildi og Brynhildi Þórðardætrum. Hins vegar var grunnurinn að samstarfinu lagður árið 2004 með samsýningu þeirra systra á Ljósanótt.
Brynhildur er með BA í textíl – og fatahönnun frá Listaháskóla Íslands 2004 og MSc í tæknilegum textílum frá Leeds University 2006. Gunnhildur er með BA (HONS) í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge, Anglia Ruskin University árið 2003 og MA í liststjórnun árið 2006 frá sama háskóla.

Þetta byrjaði allt saman þegar Brynhildur kláraði námið í Listaháskólanum og Gunnhildur flutti heim eftir fimm ára nám og búsetu í Bretlandi. Þær höfðu áður verið að vinna að eigin verkefnum innan þeirrar menntunar og áhuga en í fyrsta sinn eftir að hafa klárað BA námið héldu þær samsýninguna ‘Fjarskipti’ á Ljósanótt í Keflavík. Sýningin þeirra samanstóð af abstrakt verkum Gunnhildar og fylgihlutum og fatalínu eftir Brynhildi. Þetta var þeirra upphaflega hugmynd að sameina list og fatahönnun í eina heild. Bæði Gunnhildur og Brynhildur héldu áfram í námi og unnu næst saman fyrir sýninguna sína ‘Sundur og saman’ árið 2005 einnig á Ljósanótt. Þær kláruðu svo MA og MSc gráður sínar árið 2006.

Eftir annað hlé og námslok byrjuðu systurnar á tvíhliða samstarfi við íslenska prjónafyrirtækið Glófa sem hefur sitt aðalsetur í Kópavogi. Systurnar hönnuðu nýtt mynstur fyrir íslensku ullina sem Glófi prjónaði fyrir þær. Innblásturinn að mynstrinu sóttu þær í íslenska lakkrísinn og lakkrískonfekt því þær bæði elska bragðið af því og litagleðina. Úr efninu hafa þær hannað fatnað á bæði kynin auk barnafatnaðs. Þá hefur efnið verið sett upp sem innsetning og fatnaður á tveimur sýningum, kallað ‘Prjónaheimur Lúka’, í Þjóðaminjasafni Íslands og í galleríBOXi á Akureyri. Fatnaðurinn er seldur í fjórum búðum á Íslandi sjá umboðsaðila. Í ársbyrjun 2011 kvaddi Gunnhildur vegna anna en heldur áfram samstarfi við fyrirtækið.

Lúka Art & Design, Norðurbakki 11b, 220 Hafnarfjörður a luka.artdesign@gmail.com
www.myspace.com/lukaartdesign
www.facebook.com/pages/Luka-Art-Design/156196442017